Spilverk þjóðanna

Hljómsveit

Stofnuð þann 1970

Spilverk þjóðanna

Upphafsárum áttunda áratugarins fylgdu ýmis áföll sem höfðu áhrif á gang rokksögunnar. Bítlarnir lögðu upp laupana árið 1970, Janis Joplin og Jimi Hendrix létust sviplega sama ár og ári síðar lést Jim Morrison á dularfullan hátt í París. Hér heima leið gróskumikið tónlistarskeið undir lok uppúr 1973, þegar Trúbrot, Náttúra og fleiri framsæknar rokksveitir duttu úr skaftinu hver af annarri. Tími glysrokks og diskó tók við og fyrr en varði ríkti hálfgerð lognmolla í íslenska poppinu. Meðan þessir atburðir áttu sér stað var ungmennafélagsandinn ríkjandi hjá hópi vina úr Hlíðunum og smáíbúðahverfinu sem stunduðu saman nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Menntaskólahúmorinn var ríkjandi og áhyggjuleysið allsráðandi og alltumvefjandi. Þessir félagar hittust reglulega til að leika tónlist, fyrst undir samheitinu Hassansmjör árið 1970, síðan sem Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar og félaga árið 1971. 

Ári seinna var nafni hópsins breytt í Egils og enn síðar brá fyrir nafninu Spilverk þjóðanna, sennilega ’73 eða ’74. Lengi vel var umfang þessa hóps nokkuð óljóst. Fjöldi meðlima var mjög á reiki enda skiptu slík smáatriði litlu máli. Línurnar skýrðust allnokkuð Þjóðhátíðarárið 1974 þegar ljóst þótti að löglegir meðlimir Spilverks þjóðanna teldust vera þeir Valgeir Guðjónsson, Egill Ólafsson og Sigurður Bjóla Garðarsson. Þar með hófst hin eiginlega Spilverks saga þjóðanna.