Um vefinn

"Hvenær kom ....lifun út?  Trommaði Ásgeir Óskarsson ekki á henni?  Í hvaða öðrum hljómsveitum var hann?"

tonlist.is getur sagt okkur hvenær platan kom út en getur ekki sagt okkur hverjir spiluðu á henni.  Það er aftur á móti hægt að finna á discogs.com.  Hvergi er samt hægt að finna tæmandi lista yfir verkefni Ásgeirs.

Íslendingar státa sig oft af menningunni; tungumálinu, bókmenntunum og ekki síst tónlistinni.  Við viljum líka oft meina að við séum með tæknivæddustu þjóðum heims.  Hvernig má það þá vera að upplýsingar um tónlistina okkar, bókmenntirnar, leikistina, myndlistina og bíómyndirnar er ekki aðgengilegra en raun ber vitni.

íslensktónlist.is vill breyta þessu.  íslensktónlist.is vill verða uppflettivefur yfir alla íslenska tónlist.  Vefurinn vill vera aðgengilegur leikmönnum jafnt sem lærðum.  Hann vill miðla og fræða.

Nánar

Verkefnið er í grunninn CMS og Wiki kerfi, útfært í vefumsjónarkerfinu Drupal.  Það er CMS kerfi í þeim skilningi að það heldur utanum upplýsingar á agaðan hátt og veitir aðgang að þeim í gegnum vefviðmót.  Það er Wiki kerfi að því leiti að það leitar til hins almenna notanda til að fylla inn þessar upplýsingar.

Eins og við er að búast af kerfi sem heldur utanum útgefna tónlist, þá styður kerfið við eigindið "plata".  Plata inniheldur lag.  Lag hefur höfund(a), nafn, stíl, lengd og þar eftir götunum.   Plata á sér líka höfund, sem oftast er hljómsveit, hljómsveitir eða einstaklingar.  Í lagi leika líka einstaklingar (listamenn) sem svo leika í öðrum lögum og semja oþh.  Lag getur verið í frumútgáfu eða ábreiðuútgáfu, hvort sem heldur er ábreiða upprunalegs flytjanda (t.d. lifandl flutningur eða akústísk útgáfa) eða ábreiða annara.  Hver gaf út frumútgáfuna?  Hvað hafa verið gefnar út margar útgáfur.

Vegna þess að íslensktónlist.is hefur vel skilgreinda gagnagrind má biðja um allskonar upplýsingar eins og tæmandi lista yfir lög sem ákveðinn einstaklingur hefur leikið í, tæmandi lista yfir lög sem einstaklingur hefur samið o.sv.fr.

íslensktónlist.is getur líka sýnt hluti sem eru óhefðbundnari eins og lista yfir verk tiltekinnar hljómsveitar, á tímaás.  Með því verða afköst hljómsveitarinnar auðlæsilegri.  

Sem dæmi gæti maður séð á myndrænan hátt að tiltekin hljómsveit gaf út grimmt á fyrri hluta starfstímabilsins en minna á þeim seinni.  Einnig mætti setja upp feril tiltekins listamanns á slíkan ás.  Sem dæmi má nefna téðan Ásgeir Óskarsson sem hefur verið í hljómsveitum á borð við Eik, Pelikan, Þursaflokkinn og Stuðmönnum, auk þess að hafa spilað inn á óteljandi hljómplötur sem "sessionleikari" og gefið út sólóplötur.

Eins og áður sagði er íslensktónlist.is Wiki kerfi að því leiti að það eru notendur sem setja inn efnið.  Rannsóknir hafa verið gerðar á því hverjir setja inn efni á slíkar síður og þó svo að það séu fáir sem það gera þá myndast iðulega traustur kjarni sem er duglegur við efnisöflun.  Það er raunhæft að áætla að slíkur kjarni myndi mynast í kringum íslensktónlist.is.  Íslendingar eru áhugasamir um tónlistarsögu eins og spilið og þættirnir PoppPunktur eru gott dæmi um.

Til að ekki þurfi að handslá inn allt efni er kerfið tengt við tónlistarveitur um allan heim.  Í dag eru þrjár veitur sem eru áreiðanlegastar með gögn:

  • Spotify er einn stærsti tónlistargagnagrunnur heims og þangað er leitað til að geta birt 30 sek. lagbúta og heil lög og plötur, séu þær þar að finna.
  • Discogs er með mikið af upplýsingum um hljómplöturnar sjálfar og hljóðfæraleikarana sem leika í lögunum
  • Musicbrainz er með upplýsingar um listamennina sjálfa, hvenær þeir eru fæddir, dóu, lífshlaup ofl.

Þegar notandinn er að sýsla með ákveðin eigindi leitar kerfið sjálfkrafa í þessum gagnaveitum og býður upp á þægilega leið til að afrita gögnin beint inn á vefinn.

Gæðakerfi er innbyggt í vefinn, þannig að farið verður yfir færslur nýliða áður en þær eru samþykktar inn sem fullgildar færslur.

Fróðleikur í formi texta er sömuleiðis eitthvað sem ætti heima á vefnum.  Í samtölum mínum við menn á borð við Jónatan Garðarsson og Ásgeir Tómasson (tónlistarspekúlanta), hefur komið fram að þeim myndu veita góðfúslegt leyfi til að birta allan sinn texta á vefnum, svo framarlega sem heimilda sé getið og að ekki hafi verið átt við textann á neinn hátt.

Alls kyns listar, svo sem uppáhaldslög Dr. Gunna, vinsældalistar Rásar 2 og Bylgjunnar, "úr glatkistunni" og fleira má einnig ímynda sér á vef sem þessum.

Útfærsla

íslensktónlist.is er útfært í vefumsjónarkerfinu Drupal.  Sú ákvörðun var tekin einfaldlega vegna þess að Hilmar Kári er sérfræðingur í því vefumsjónarkerfi og því ekki langt að sækja tækniþekkinguna.  Það var einnig valið vegna þess að það meðhöndlar allt það „venjulega“ sem slíkt kerfi þarf að innihalda ss. notendaskráningu, auðkenningu, utanumhald á eigindum og tengslum þar á milli.

Vefurinn notast við Nginx vefþjón, „cache“ tækni frá Varnish, PHP7 og MariaDB gagnagrunn.  Leitarvélin er Elastic Search.

Í dag er verið að leggja mestu áhersluna á að smíða gott viðmót fyrir notendur við innsetningu gagna og einnig að smíða gott birtingarviðmót fyrir það magn upplýsinga sem oft getur verið í kringum eitt eigindi.

Áhugi á verkefninu

Hugmyndin að verkefninu er orðin átta ára gömul.  Upphafið varð þegar þrír nemendur í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík ákváðu að ráðast í smíði gagnagrindar og vefkerfis sem lokaverkefni í BS.c. námi sínu árið 2011, þremur árum eftir upprunalegu hugmyndavinnunar. Það voru þeir Arnþór Snær Sævarsson, Einar Valur Aðalsteinsson og Hilmar Kári Hallbjörnsson sem unnu verkefnið í HR, en Einar og Hilmar áttu upprunalegu hugmyndina.

Undirtektirnar hafa skiljanlega verið misjafnar, sérstaklega óx gagnaöflunin í augum á fólki, en eftir því sem vefþjónustur verða betri verður auðveldara að verða sér úti um gögn.  Flestar eru þó undirtektirnar jákvæðar, því langflestir eru sammála um að slíkan gagnagrunn vantar.

Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) ákvað árið 2011 að fara út í skráningu í samvinnu við tónlist.is, en ákváðu samt að ganga ekki næstum því jafn langt og við vildum gera.  Þeir ákváðu t.d. að skrá aðeins „aðal“ flytjendur, en ekki alla.  Því yrði skráð að Björgvin Halldórsson syngi á plötu (t.d. sólóplötu) en ekki endilega að Ásgeir Óskarsson myndi tromma á henni eða að Sammi Jagúar myndi spila á básúnu í einu lagi á henni.

Tónlistarsafn Íslands hafði mikinn áhuga á verkefninu á sínum tíma, en setti fyrir sig fjárskort þegar þeim var boðin þáttaka.

STEF og FTT fannst verkefnið spennandi og voru tilbúnir til að taka þátt að því marki að leyfa söfnun gagna á stafrænt form.  Árið 2011 var hugmynd um að vefurinn myndi streyma sjálfur tónlistinni, en með tilkomu Spotify og annara þjónusta hefur það vandamál verið leyst að miklum hluta, amk. á nýju efni.  Einnig ræddum við við fjölda tónlistarmanna sem allir sýndu verkefninu mikinn áhuga.

Allir eru á sama máli um að grunninn vantar.  Síðast í lok árs 2016 var Gunnar Smári Helgason, einn af virkustu upptökumönnum níunda og tíunda ára að leita að lista yfir "afrek" sín, án árangurs.  Því sný ég mér aftur að þessu verkefni.